Ásbjörn Ólafsson ehf. - Heildverslun | asbjorn.is

Um Okkur.

Starfsemin

Hjá Ásbirni Ólafssyni ehf. starfar samhentur hópur tæplega 30 starfsmanna með fjölbreytta reynslu og ólíkan bakgrunn. Ásbjörn leitast við að veita fyrsta flokks þjónustu ásamt fjölbreyttu vöruúrvali, en fyrirtækið er umboðsaðili fyrir fjölmörg vel þekkt vörumerki. Markmiðið er að bjóða uppá vörur, hugmyndir og lausnir fyrir viðskiptavini fyrirtækisins sem henta þeirra þörfum.

Vöruvalið okkar er mjög vítt en boðið er uppá búsáhöld og gjafavöru til smásölu og fyrir stóreldhús. Einnig er þar að finna hágæða vinnufatnað og -skó, ásamt hestavörum.

Ásbjörn Ólafsson ehf. annast beina dreifingu á söluvörum fyrirtækisins til allra viðskiptavina á höfuðborgarsvæðinu, alla daga vinnuvikunnar. Flytjandi annast flutning til annara staða á landsbyggðinni. Ásbjörn Ólafsson ehf. leggur allt kapp á að pantanir sem berast séu sendar til viðskiptavina einum sólarhring eftir að pöntun hefur verið gerð.

Lager og skrifstofa Ásbjörns er staðsett við Köllunarklettsveg 6 í Reykjavík, en ásamt söludeildum og starfsfólki vöruhúss er þar staðsett starfsfólk innkaupadeildar, fjármáladeildar og markaðs- og þjónustudeildar.

Gildi Ásbjörns Ólafssonar ehf. eru traust, gleði, fagmennska og árangur og við leggjum okkur fram við að innleiða þessi gildi í alla starfsemi fyrirtækisins.

Sagan

Ásbjörn Ólafsson ehf. var stofnað af Ásbirni Ólafssyni stórkaupmanni árið 1937. Í fyrstu var starfsemin á Laugavegi 11, en flutti svo árið 1940 á Grettisgötu 2a. Á þessum fyrstu árum var meginstarfsemin innflutningur og sala á ýmsum varningi, svo sem vefnaðarvöru, skófatnaði og smávörum. Fljótlega bættust svo við matvörur, byggingavörur, húsgögn, fatnaður og ýmislegt fleira.

Árið 1967 fluttist heildverslunin að Borgartúni 33, en gaman er að geta þess að þegar það var byggt var það „stórhýsið“ í Borgartúninu. Þar opnaði Ásbjörn einnig Véla- og raftækjaverslunina, en auk hennar rak hann einnig ýmis önnur fyrirtæki. Má þar nefna Kjólabúðina Mær í Lækjargötunni, Húsgagnaverslun Austurbæjar á Skólavörðustígnum og Timburverslun og innflutning í Skeifunni, en um tíma var innflutningur og sala á byggingavörum stór hluti viðskiptanna.

Árið 1992 flutti fyrirtækið í nýbyggt húsnæði sitt í Skútuvogi 11a. Þá var kjarnastarfsemi fyrirtækisins orðin sú sama og er enn í dag, en það er innflutningur, markaðssetning, sala og dreifing á ýmsum vörum fyrir neytenda- sem og stórnotendamarkað. Árið 2006 byggði fyrirtækið núverandi húsnæði sitt að Köllunarklettsvegi 6 og starfar þar hópur framúrskarandi starfsmanna.